Hallfreður er fæddur og uppalinn Eskifirðingur og hefur verið í hestum síðan hann var strákur. Hestamennska var stunduð á heimilinu frá því hann man eftir sér og því má segja að hann hafi haft áhuga á hestamennsku alla tíð.
Gunnhildur er fædd í Reykjavík og uppalin í Garðabæ. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á dýrum.
Þau eiga þrjú börn sem eru uppkomin og 6 barnabörn.
Árið 1986 fluttu þau til Eskifjarðar að loknu iðnnámi Hallfreðs og voru strax komin á kaf hestana og útreiðar, þótt áhuginn á hrossarækt hefði ávallt verið til staðar. Á Eskifirði stofnaði Hallfreður bifreiðaverkstæði og rak það í tvo áratugi.
Árið 2003 keyptu þau Lönguhlíð á Völlum Fljótsdalshéraði. Langahlíð er um það bil 80 hektara jörð, auk upprekstrarlands. Á jörðinni er gamalt íbúðarhús sem var byggt stuttu eftir 1960. Útihúsin eru gamalt fjós, fjárhús og hlaða. Um tíma var jörðin skógræktarjörð og hefur skógi verið plantað í mela og móa og sums staðar í ræktuð tún.
Hestmennskuna og hrossaræktina hafa þau ávallt stundað samhliða öðrum störfum.
Stóra Sandfell II
Ræktunin í Lönguhlíð kemur upp úr ræktun Bjarna Hagen frá Stóra Sandfelli II í Skriðdal. Bjarni og Hallfreður eru systkinasynir og Bjarni hefur verið í hrossarækt um áraraðir.
Kolbrún frá Stóra Sandfelli II
Til að byrja með vorum við hjónin með eina hryssu, Kolbrúnu frá Stóra Standfelli II, sem var undan Stellu frá Kolkuósi og Mána frá Ketilsstöðum, og undan henni fengum við nokkur hross, þar á meðal Öskju sem fór í 1. verðlaun fyrir kosti. Kolbrún eignaðist flest sín afkvæmi í Sandfelli og byrjaði því ræktunin þar.
Glódís frá Stóra Sandfelli II
Síðar meir eignaðist Gunnhildur helmingshlut í Glódísi frá Stóra Sandfelli II á móti Bjarna. Glódís hefur eignast fjögur 1. verðlauna-hross, þar á meðal Sædísi sem var fyrsta hryssan sem við fengum undan henni.
Ræktun Glódísar
Ræktun Glódísar byggist á Elísu frá Stóra Sandfelli II sem er af „brúna kyninu“ og Glettu frá Stóra Sandfelli II sem er af „rauða kyninu“ en þannig var iðulega talað um þessi kyn í Sandfelli. Gletta er undan Glóa frá Ketilsstöðum sem var undan Lýsingi frá Voðmúlastöðum. Elísa er undan Sörla frá Sauðárkróki og má rekja móðurætt Elísu aftur til Sörla 71. Glódís, sem er okkar aðalræktunarhryssa, er því af báðum þessum kynjum.
Aðrar ræktunarhryssur í Lönguhlíð eru Sædís, Askja, Rán og Rösk.
Sædís er dóttir Glódísar frá Stóra Sandfelli II og Huga frá Hafsteinsstöðum. Askja er dóttir Kolbrúnar frá Stóra Sandfelli II og Erils frá Kópavogi. Rán er dóttir Gerplu frá Stóra Sandfelli II og Gusts frá Hól. Rösk er dóttir Gerplu frá Stóra Sandfelli II og Glyms frá Lönguhlíð sem er undan Glódísi og Gusti frá Hól. Stóðhestar sem við höfum notað eru Gustur frá Hól, Hugi frá Hafsteinsstöðum, Erill frá Kópavogi, Keilir frá Miðsitju, Sigur frá Hólabaki, Gauti frá Reykjavík, Sveinn Hervar, Álfur frá Selfossi, Aron frá Strandarhöfða, Glampi frá Vatnsleysu og Kjerúlf frá Kollaleiru. Einnig höfum við notað Sædísarsynina Draum og Hauk frá Lönguhlíð og Glódísarsoninn Greip frá Lönguhlíð.